Brjósklos, útbunganir og slit í baki er algengt hjá fólki, líka þeim sem aldrei þjást af bakverkjum. Gerð var stór rannsókn (meta-analysis) þar sem skoðaðar voru myndir (CT eða MRI) af baki vel yfir 3000 þátttakenda sem ekki höfðu sögu um bakverki. Í ljós kom að slit, útbunganir og brjósklos voru algeng hjá fólki og var meira um þetta eftir því sem fólk var eldra - ég minni á að þetta var fólk sem ekki þjáðist af bakverkjum. Greinina er hægt að skoða hér fyrir neðan:
https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/25430861/
John Sarno læknir var upphafsmaður þess að nota viðtalsmeðferð til að lækna verki en ekki bara til að hjálpa fólki að þola verkina. Hann kallaði flestar breytingar á baki sem sjást á myndum (og oft er kennt um verki) "normal abnormalities". Þetta væru bara eðlilegar breytingar sem yrðu með aldri rétt eins og grátt hár og hrukkur og hefðu sjaldnast neitt með verkina að gera. Í rannsókninni kom meðal annars í ljós að um 36% einkennalausra um fimmtugt voru með brjósklos. Þannig að sú nálgun sem hefur verið við lýði að kenna brjósklosum og sliti um bakverki á sjaldnast við rök að styðjast.